Fræðslusjóður

Menntun skiptir æ meira máli í daglegu lífi og aðgangur að virkri endur- og símenntun er nauðsynleg til að starfsmenn séu ávalt samkeppnishæfir á vinnumarkaði. Byggiðn leggur mikla áherslu á að tryggja félagsmönnum sínum aðgang að bestu fræðslutilboðum á hverjum tíma. Félagið á aðild að Iðunni, fræðslusetri, í gegnum þátttöku sína í Samiðn. Iðan stendur fyrir margvíslegu námi í þeim iðngreinum sem félagar í Byggiðn starfa við, allt frá grunnnámi, endur- og símenntun og einstökum námskeiðum.

Jafnframt starfrækir Byggiðn sérstakan fræðslusjóð. Tilgangur hans er að stuðla að hverskonar fræðslu og framgangi félagsmanna. Það er m.a. gert með því að styrkja félagsmenn til þátttöku í námskeiðum og ráðstefnum, sem ekki eru styrkt af öðrum styrktarsjóðum sem félagsmenn eiga aðild að. Sjóðurinn veitir ekki styrki vegna náms eða námskeiða í þeim tilvikum sem félagmenn hafa fullnýtt áunninn rétt í öðrum sjóðum á sömu forsendum.
Fræðslusjóðurinn hefur sérstaka skipulagsskrá þar sem fram koma þær reglur sem unnið er eftir þegar styrkjum úr sjóðnum er úthlutað.

Umsóknir úr fræðslusjóði

Á þjónustusíðum Byggiðnar „mínar síður“ má fá upplýsingar um þá styrki sem í boði eru úr fræðslusjóði Byggiðnar. Þar er hægt að fylla út og senda rafræna umsókn í fræðslusjóð Byggiðnar.  Með umsókn um styrk þarf að fylgja í viðhengi afrit af reikningi þar sem  fram kemur nafn og kennitala umsækjanda.

Einnig er hægt að prenta út umsóknarblað  (hér fyrir neðan) til að senda okkur í pósti eða koma með á skrifstofu.

Umsókn um styrk úr fræðslusjóði

Hér er hægt að sækja um styrk úr fræðslusjóði.

Skipulagsskrá fyrir Fræðslusjóð

1. gr. Sjálfstæði sjóðsins og reikningshald
Sjóðurinn er eign Byggiðnar, en hefur sjálfstætt reikningshald og er undanþeginn öllum fjárskuldbindingum félagsins.
2. gr. Stjórn sjóðsins
Sjóðsstjórn er skipuð stjórn Byggiðnar eins og hún er hverju sinni. Stjórn sjóðsins, annast sjóðinn og úthlutun styrkja úr honum samkvæmt reglum sem hún setur sjóðnum.
3. gr. Fjármögnun sjóðsins
Sjóðurinn skal fjármagnaður með föstu framlagi úr félagssjóði sem nemur 10% af innheimtum félagsgjöldum hvers árs, auk fjármuna sem aflað er til styrktar sjóðnum, með sérstakri fjáröflun félagsins.
Stofnframlag sjóðsins eru kr. 10.000.000 sem félagssjóður leggur til.
4. gr. Tilgangur sjóðsins
Tilgangur sjóðsins er, að stuðla að hverskonar fræðslu og framgangi félagsmanna m.a. með því að styrkja þá til þátttöku í námskeiðum og ráðstefnum, sem ekki eru styrkt af öðrum styrktarsjóðum sem félagsmenn eiga aðild að. Sjóðurinn veitir ekki sjóðsfélögum aðstoð vegna náms eða námskeiða hafi sjóðsfélagi fullnýtt sér áunninn rétt annarra sjóða á sömu forsendum.
5.gr. Málskotsréttur
Heimilt er að vísa ágreiningi vegna úthlutunar til úrskurðar trúnaðarráðsfundar.
6. gr. Takmörkun á úthlutun úr sjóðnum
Höfuðstóll má aldrei vera lægri en sem 2/3 af tekjum sjóðsins næstliðins árs.
7. gr. Reikningsár sjóðsins
Reikningsár sjóðsins almanaksárið.
8. gr. Endurskoðun
Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af endurskoðendum félagsins og lagður fram til afgreiðslu á aðalfundi félagsins.
9. gr. Breytingar á skipulagsskrá sjóðsins
Breytingar á skipulagsskrá þessari er heimilt að gera á félagsfundi hafi umrædd breyting verið tilkynnt með fundarboði og umsögn trúnaðarráðs fylgir með.